2009-04-06 13:05:58 CEST

2009-04-06 13:06:58 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Sparisjóður Mýrasýslu - Fyrirtækjafréttir

- Sparisjóður Mýrasýslu semur við stærstu lánardrottna og selur allar eignir til Nýja Kaupþings banka


Þann 27. mars síðastliðinn samþykktu stærstu lánardrottnar Sparisjóðs Mýrasýslu
(„SPM“) tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðsins. Á grundvelli þess
samkomulags hefur Sparisjóður Mýrasýslu selt allar eignir sínar til Nýja
Kaupþings banka hf. („Nýi Kaupþing“). Nýja Kaupþing mun greiða fyrir eignirnar
með skuldabréfum og hlutabréfum útgefnum af Nýja Kaupþingi. 

Til að tryggja áframhaldandi óraskaðan rekstur SPM er afar mikilvægt að
afhending á réttindum og skyldum samkvæmt kaupsamningi SPM og Nýja Kaupþings
eigi sér stað í einu lagi. Að ósk stjórnar SPM hefur því Fjármálaeftirlitið
fallist á að beita heimildum í 3. mgr. 100. gr. a. í lögum nr. 161/2002 um
fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald
stofnfjáreigendafundar í SPM og taka ákvörðun um að framselja frá SPM til Nýja
Kaupþings í einu lagi þau réttindi og eignir sem kaupsamningur kveður á um.
Þetta er gert vegna þess að slíkur flutningur á inn- og útlánum,
tryggingarréttindum og öðrum réttindum og eignum sem nauðsynlegt er að flytja,
án hreins samruna, er ekki á valdi stjórnar SPM. 

Við söluna færast allar eignir SPM ásamt innlánum til Nýja Kaupþings sem tekur
við rekstri SPM í Borgarnesi. Stefnt er að sameiningu SPM og útibús Nýja
Kaupþings í Borgarnesi á næstu vikum. Samhliða sölunni eignast Nýi Kaupþing
allt stofnfé í SPM. Jafnframt mun eignarhald á dótturfélögum, þar með talinn
Sparisjóður Ólafsfjarðar og Afl Sparisjóður á Siglufirði og Sauðárkróki, færast
til Nýja Kaupþings. Stefnt er að rekstri þeirra í óbreyttri mynd. 

Með þessari aðgerð er tryggt að þjónusta við viðskiptavini SPM og tengdra
sparisjóða verði ekki fyrir neinni röskun og munu þeir geta áfram sótt alla
sína þjónustu á sama stað og áður. Jafnframt er tryggt að breytingar hjá
starfsfólk verða lágmarkaðar með þessari leið. 

Farsæl lausn á vandamálum SPM fæst með þessu í sátt við lánardrottna og
hagsmunaðila en sparisjóðurinn hefur átt í miklum fjárhagsörðugleikum síðan í
byrjun árs 2008 sem endurspeglast í um 21 milljarða króna tapi á síðastliðnu
rekstrarári samkvæmt drögum að uppgjöri sjóðsins. 


Tillögur um fjárhagslega endurskipulagningu

Líkt og greint er frá hér framar þá skiluðu viðræður sparisjóðsins við stærstu
lánardrottna þeim árangri að 27. mars síðastliðinn samþykktu stærstu
lánardrottnar tillögu sparisjóðsins að fjárhagslegri endurskipulagningu.
Tillagan var á þann veg að almennar og víkjandi kröfur á hendur sparisjóðnum
yrðu gerðar upp með eftirfarandi hætti: 

•  Að 43,7% almennra krafna yrði greiddur með aukningu á stofnfé í SPM þannig
   að fyrir hverja krónu af almennum kröfum kæmi ein krónu að stofnfé; 

•  Að 3,1% almennra krafna yrði greiddur með peningagreiðslu; 

•  Að 53,2% almennra krafna yrði greiddur með skuldabréfi (einu eða fleirum). 
   Skuldabréfið átti að vera til 9 ára og afborgunarlaust fyrstu 2 árin; og 

•  Að víkjandi lán yrðu að öllu leyti (100%) greidd með aukningu á stofnfé í
   SPM, krónu fyrir krónu. 

Í tillögu SPM til kröfuhafa var á því byggt að yrði hún samþykkt skyldi SPM
breytt í hlutafélag og hann síðan sameinaður Nýja Kaupþingi. 

Stjórn SPM hyggst óska eftir heimild til að ganga til formlegra nauðsamninga í
samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og þá líklega
að undangenginni greiðslustöðvun á meðan frumvarp að nauðasamningi og
nauðsynleg gögn til stuðnings því væru útbúin á grundvelli framangreindrar
tillögu. 

Drög að uppgjöri fyrir 2008

Samkvæmt drögum að uppgjöri Sparisjóðs Mýrasýslu (móðurfélags) fyrir árið 2008
nam tap af rekstri um 21.147 milljónum króna eftir skatta. Tap af rekstri
sjóðsins skýrist af verðlækkun hlutabréfa í eigu SPM og auknum framlögum í
afskriftareikning útlána sem voru talin nauðynleg í ljósi þess að aðstæður
fyrirtækja og einstaklinga í hópi viðskiptavina SPM hafa versnað verulegu sökum
veikrar stöðu íslensku krónunnar, hárra vaxta og kólnunar íslenska
hagkerfisins. 

Heildareignir námu 36.466 milljónum króna í lok árs og þar af námu útlán til
viðskiptamanna 25.295 milljónum króna. Heildarskuldir SPM námu 51.621 milljónir
króna. Eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi var neikvætt um 15.155 milljónir
króna en var jákvætt um 6.299 milljónir króna í árslok 2007. 

Hér að neðan má sjá helstu tölur úr drögum að uppgjöri fyrir árið 2008.
Sjá viðhengi.