2016-10-03 11:29:08 CEST

2016-10-03 11:29:08 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Icelandair Group hf. - Fyrirtækjafréttir

Áframhaldandi vöxtur í millilandaflugi árið 2017


  -- Fjöldi farþega áætlaður um 4,2 milljónir
  -- Um 13% framboðsaukning milli ára

Gert er ráð fyrir að flugáætlun Icelandair, dótturfélags Icelandair Group,
fyrir árið 2017 verði um 13% umfangsmeiri en á þessu ári. Áætlað er að farþegar
verði um 4,2 milljónir á árinu 2017 og muni fjölga um 450 þúsund frá
yfirstandandi ári. Flug verður hafið til tveggja nýrra áfangastaða, sem kynntir
verða á næstunni og ferðum fjölgað til fjölmargra borga í Norður-Ameríku og
Evrópu. Alls verða 30 flugvélar nýttar til farþegaflugsins næsta sumar, en tvær
Boeing 767 vélar bætast við flotann. Þessi vöxtur mun hafa í för með sér
áframhaldandi eflingu ferðaþjónustunnar á Íslandi og þar með styrkja aðra
starfsemi innan Icelandair Group. 

Áætlað er að framboðnum sætiskílómetrum fjölgi um 13% milli ára, en flugferðum
í millilandaflugi fjölgar um 8%. Munurinn skýrist annars vegar af auknu vægi
flugs á lengri flugleiðum til Norður-Ameríku og hins vegar fjölgunar stærri
flugvéla, en fjórar 262 sæta Boeing 767-300 breiðþotur verða í flotanum á næsta
ári og 26 Boeing 757 þotur. 

Leiðakerfi félagsins hefur margfaldast að umfangi frá árinu 2009. Þá voru
farþegar um 1,3 milljónir, eða um 30% þess fjölda, 4,2 milljónum, sem gert er
ráð fyrir á árinu 2017. Leiðakerfið hefur einkum byggt á tengingum á
Keflavíkurflugvelli með morgunbrottförum til Evrópu og síðdegisflugi til
Norður-Ameríku. Undanfarin ár hefur félagið verið að byggja upp annan
tengibanka, með brottförum laust fyrir hádegi til Norður Ameríku og
miðnæturbrottförum frá Íslandi til Evrópu. Sú uppbygging mun halda áfram á
næsta ári. 

Björgólfur Jóihannsson forstjóri Icelandair Group: „Samhliða birtingu uppgjörs
fyrir annan ársfjórðung í júlí lækkuðum við afkomuspá félagsins, aðallega vegna
lækkunar meðalfargjalda. Samt sem áður gerum við ráð fyrir að árið 2016 verði
eitt besta rekstrarár í sögu félagsins. Það er því vel í stakk búið til að
takast á við áframhaldandi innri vöxt.“ 



Nánari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group  sími: 896-1455.
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group sími 665-8801.
Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair sími 864-7177.