2017-10-25 18:33:54 CEST

2017-10-25 18:33:54 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Landsbankinn hf. - Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Landsbankinn hf. : S&P hækkar lánshæfiseinkunn Landsbankans í BBB+/A-2 með stöðugum horfum


Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur hækkað lánshæfiseinkunn
Landsbankans úr BBB/A-2 í BBB+/A-2 og telur horfurnar stöðugar. Þetta kemur fram
í tilkynningu fyrirtækisins um lánshæfi Landsbankans sem birt var 25. október
2017.

Í fréttatilkynningu S&P kemur fram að hagvöxtur á Íslandi sé kröftugur,
styrkleiki efnahagslífsins hafi aukist og dregið hafi úr skuldsetningu
einkageirans en að auknar áhyggjur af efnahagslegu ójafnvægi vegi að hluta til
upp á móti þessum þáttum. Ennfremur segir að hækkun lánshæfismats Landsbankans
endurspegli sterka fjárhagsstöðu bankans sem S&P telur að muni ekki breytast,
jafnvel þótt bankinn vinni áfram að því að ná fram hagstæðari fjármagnsskipan.
Því telji S&P rétt að hækka lánshæfismat bankans í BBB+ til langs tíma og
staðfesta A-2 lánshæfismat til skamms tíma. Mat um að horfurnar séu stöðugar
endurspegli væntingar S&P um hagstæða þróun efnahagsmála á Íslandi og að
fjárhagsstaða Landsbankans haldist áfram mjög sterk.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

,,Hærra mat S&P á lánshæfi Landsbankans er til marks um sterka stöðu bankans og
íslensks efnahagslífs og er í takti við væntingar bankans. Lánshæfiseinkunn
Landsbankans hjá S&P hefur nú hækkað um þrjú þrep á þremur árum. Hærra
lánshæfismat hefur, ásamt öðru, leitt til þess að kjör og aðgengi bankans að
fjármögnun erlendis hefur batnað umtalsvert á undanförnum árum."

Nánari upplýsingar veita:

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, pr@landsbankinn.is og í síma 410 6263 /
899 3745

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, ir@landsbankinn.is og í síma 410 7310





[]