2015-01-09 10:19:37 CET

2015-01-09 10:20:38 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Eimskipafélag Íslands hf. - Breyting á stjórn/framkvæmdastjórn/endurskoðendum

Skipulagsbreytingar hjá Eimskip


Ákveðið hefur verið að gera nokkrar breytingar á skipuriti Eimskips til að
aðlaga starfsemi félagsins að síbreytilegu umhverfi, þörfum viðskiptavina og
breyttum áherslum í skiparekstri. 

Breytingar verða gerðar á rekstrarsviði og í sölu og þjónustu og koma tvö ný
svið í stað þeirra eldri sem bera munu heitin skiparekstrarsvið og
flutningasvið. 



SKIPAREKSTRARSVIÐ

Framkvæmdastjóri skiparekstrarsviðs verður Ásbjörn Skúlason, sem verið hefur
framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, og mun sviðið sjá um rekstur skipaflota
félagsins. Sviðið mun einnig sjá um leigu, kaup og sölu skipa og smíði á nýjum
skipum. Mörg stór verkefni eru framundan í tengslum við endurnýjun á skipaflota
félagsins og því er mikilvægt að leggja enn ríkari áherslu á þennan þátt
starfseminnar. 

Í tengslum við breytingarnar mun Jóhann Steinar Steinarsson taka við stöðu
forstöðumanns og mun hann verða staðsettur í Hamborg, Þýskalandi. 



FLUTNINGASVIÐ

Framkvæmdastjóri flutningasviðs verður Matthías Matthíasson sem verið hefur
framkvæmdastjóri sölu og þjónustu. Meginverkefni sviðsins eru eins og áður sala
og þjónusta tengd sjóflutningum til og frá Íslandi, en að auki bætast við
verkefni tengd flutningastýringu og sölu stórflutninga. 

Stórflutningadeild

Forstöðumaður stórflutningadeildar verður Ingvar Sigurðsson og mun deildin sjá
um sölu á stórflutningum. Mörg verkefni tengd stóriðju eru í farvatninu á
Íslandi og mikilvægt fyrir félagið að fylgja þeirri þróun eftir með ríkari
áherslu á sölu og þjónustu við stórflutninga. 

Flutningastýring

Forstöðumaður flutningastýringar verður Jóhann Helgi Sigurðsson og mun deildin
annast alla flutningastýringu Eimskips á Norður-Atlantshafi. Verkefni
deildarinnar verða fyrst og fremst að tryggja áreiðanleika og sem hagkvæmastan
rekstur á flutningakerfi félagsins. 

Söludeild áætlunarflutninga, söludeild flutningaþjónustu, skráning og skjöl og
viðskiptaþjónusta, sem þau Brynjar Viggósson, Nanna H. Tómasdóttir, Arndís
Aradóttir og Þórunn Marinósdóttir stýra, munu tilheyra flutningasviði. Engar
breytingar verða á starfsemi þessara deilda frá því sem verið hefur.