2016-05-11 18:33:28 CEST

2016-05-11 18:33:28 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins 2016


Hagnaður Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins 2016 nam 2,9 milljörðum
króna samanborið við 14,9 milljarða króna á sama tímabili 2015. Arðsemi eigin
fjár var 5,7% samanborið við 35,1% fyrir sama tímabil árið 2015. 

Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 2,6 milljörðum króna samanborið við 4,0
milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2015. Arðsemi eigin fjár af reglulegri
starfsemi nam 5,1% samanborið við 9,8% á fyrsta ársfjórðungi 2015.
Heildareignir námu 1.028,6 milljörðum króna í lok mars samanborið við 1.011,0
milljarða króna í árslok 2015 og eigið fé hluthafa bankans nam 195,2 milljörðum
króna í lok mars, samanborið við 192,8 milljarða króna í árslok 2015. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok mars var 27,0% en var 24,2% í árslok 2015.
Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 26,2% samanborið við 23,4% í árslok
2015. 

Helstu rekstrar- og kennitölur bankans eru eftirfarandi:

Rekstrarreikningur                                                             
Í milljónum króna                          1F 2016  1F 2015  Breyting  Breyt. %
Hreinar vaxtatekjur                          7.273    5.783     1.490       26%
Hreinar þóknanatekjur                        3.219    3.757     (538)     (14%)
Hreinar fjármunatekjur                       (301)    7.539   (7.840)    (104%)
Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga          677    4.211   (3.534)     (84%)
Aðrar rekstrartekjur                         1.235      491       744      152%
-------------------------------------------------------------------------------
Rekstrartekjur                              12.103   21.781   (9.678)      -44%
Laun og launatengd gjöld                   (4.108)  (3.492)     (616)       18%
Annar rekstrarkostnaður                    (3.234)  (2.898)     (336)       12%
Bankaskattur                                 (742)    (730)      (12)        2%
Hrein virðisbreyting                         (503)    1.782   (2.285)     -128%
-------------------------------------------------------------------------------
Hagnaður fyrir skatta                        3.516   16.443  (12.927)      -79%
Tekjuskattur                                 (737)  (1.720)       983     (57%)
Afkoma af aflagðri starfsemi eftir skatta      104      183      (79)      -43%
-------------------------------------------------------------------------------
Hagnaður tímabilsins                         2.883   14.906  (12.023)      -81%
===============================================================================
                                                                               
Helstu kennitölur                                                              
Arðsemi eigin fjár                            5,7%    35,1%    -29,5%          
Vaxtamunur á vaxtaberandi eignir              3,1%     2,6%      0,5%          
Kostnaðarhlutfall                            60,7%    29,3%     31,3%          
Tier 1 hlutfall                              26,2%    21,2%      5,0%          



Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Afkoma þessara fyrstu mánaða ársins er viðunandi, sérstaklega í ljósi
aðstæðna, en þróun á verðbréfamörkuðum hér á landi var bankanum óhagstæð á
tímabilinu. Kjarnastarfsemi bankans gekk vel sérstaklega þegar horft er til
vaxtatekna en þær aukast nokkuð á milli ára og skiptir þar mestu annars vegar
aukin verðbólga og hærra vaxtastig en hins vegar lægri vaxtakostnaður bankans.
Rekstarkostnaður bankans eykst hins vegar á tímabilinu og þá ekki síst vegna
áhrifa kjarasamninga en einnig vegna fjölgunar starfsfólks, sérstaklega hjá
Valitor, dótturfélagi bankans sem er í nokkrum vexti á erlendum vettvangi. 

Fjármögnun Arion banka hefur breyst nokkuð og er nú til lengri tíma en áður.
Þar skiptir mestu að í upphafi árs náðust samningar við Kaupþing um
endurfjármögnun eldra láns og innstæðna Kaupþings hjá bankanum í erlendum
myntum. Endurfjármögnunin fólst í útgáfu skuldabréfs sem Arion banki gaf út að
upphæð 93 milljarðar króna til sjö ára. Í aprílmánuði gaf Arion banki svo út
sitt annað skuldabréf í evrum til breiðs hóps alþjóðlegra fjárfesta á nokkuð
hagstæðari kjörum en fyrra skuldabréfið sem gefið var út fyrir um ári síðan.
Sterk staða bankans og bætt lánshæfismat leiðir til greiðari aðgangs að
erlendum lánsfjármörkuðum. 

Startup Reykjavík verður haldið í fimmta sinn í sumar. Veruleg aukning var í
umsóknum í ár og verður á næstu dögum tilkynnt hvaða 10 fyrirtæki munu taka
þátt en Startup Reykjavík var valinn besti viðskiptahraðallinn á Íslandi 2016
af Nordic Startup Awards. Síðar á árinu mun svo Startup Energy Reykjavík
viðskiptahraðalinn fara fram í þriðja sinn. Í gegnum þessa tvo hraðla hefur
Arion banki þegar fjárfest í 54 fyrirtækjum og er fyrirséð að 17 ný og
spennandi fyrirtæki bætast við í ár. Að auki hafa þau fyrirtæki sem tekið hafa
þátt í viðskiptahröðlunum aflað sér viðbótarfjármagns í formi hlutafjár eða
styrkja sem nemur 2,2 milljörðum króna. Þegar kemur að fyrirtækjum sem eru
komin aðeins lengra í þroska og uppbyggingu þá höfum við fjárfest í
sprotasjóðnum Eyrir Sprotar fyrir milljarð króna, en hlutverk sjóðsins er að
fjárfesta í ungum fyrirtækjum með mikla vaxtarmöguleika. Bankinn er mjög
staðfastur þegar kemur að nýsköpun og styður einnig við Nýsköpunarkeppni
grunnskólana, sem er metnaðarfull keppni grunnskólanema, og skrifuðum við fyrr
á árinu undir samstarfssamning við samtökin Ungir frumkvöðlar á Íslandi sem
standa fyrir nýsköpunarátaki í framhaldsskólum landsins. Í tengslum við þetta
átak var námsmannafyrirtæki ársins nýlega valið við skemmtilega athöfn í Arion
banka. Við lítum svo á að með stuðningi við nýsköpun á hinum ýmsu stigum
menntunar og þroska fyrirtækja séum við að hlúa að framtíðinni og stuðla að enn
fjölbreyttara atvinnulífi hér á landi þegar fram líða stundir. 

Þessu tengt þá er margt spennandi að gerast á sviði fjármálatækni og mikið um
nýjungar á því sviði. Við hjá Arion banka ætlum nú í byrjun júní að standa
fyrir forritunarkeppni, sem við köllum FinTech partý Arion banka. Öllum er
velkomið að taka þátt og munu þátttakendur spreyta sig á að þróa og forrita
snjallar fjármálalausnir fyrir fyrirtæki og einstaklinga.“ 



Fundur með markaðsaðilum

Arion banki mun halda símafund á ensku fyrir markaðsaðila, fimmtudaginn 12.
maí, klukkan 13:00. Á fundinum mun Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion
banka, fara yfir helstu atriði í uppgjöri bankans. Áhugasamir geta sent
tölvupóst á ir@arionbanki.is og fá í kjölfarið sendar nánari upplýsingar
varðandi þátttöku á símafundinum. 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.