2007-11-28 10:04:53 CET

2007-11-28 10:04:53 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel Food Systems hf. - Fyrirtækjafréttir

- Samningur um kaup á Stork Food Systems


Marel Food Systems hf. (Marel) tilkynnir að félagið hefur náð samkomulagi við
Stork N.V. um kaup á Stork Food Systems (SFS). Kaupverðið er 415 miljónir evra. 

Með kaupunum tvöfaldast velta og umfang Marel auk þess sem grundvöllur fyrir
áframhaldandi innri vöxt og arðsemi hefur verið styrktur. 

Kaupin á SFS er mikilvægt skref í fyrirætlun Marel um að verða meðal fremstu
framleiðenda í heiminum á hátæknibúnaði fyrir matvælavinnslu. Engin skörun er á
starfsemi Marel og SFS eða vörulínum félaganna. 

Nánar um yfirtökuna

•  Kaupin eru gerð með fyrirvara um:
       o  Að fyrirhugað yfirtökutilboð London Acquisition N.V. um að kaupa alla
          hluti í Stork N.V. verði skilyrðislaust; 
       o  Umsögn Stork Works Council; 
       o  Samþykki samkeppnisyfirvalda. 
•  Þangað til öllum formlegum skilyrðum samningsins er fullnægt heldur hvort
   fyrirtæki um sig áfram sjálfstæðum og óbreyttum rekstri. 
•  Kaupverð er 415 miljónir evra og nemur kostnaður vegna kaupanna um 20
   miljónum evra. 
•  Marel hefur selt 20% hlut sinn í LME Eignarhaldsfélagi ehf. á verði sem
   endurspeglar tilboðsverð í fyrirhuguðu yfirtökutilboði upp á 48,4 evrur á
   hlut. 
•  Fjármögnun kaupanna eru að fullu tryggð með sölu hlutabréfa í LME
   Eignarhaldsfélagi ehf, útgáfu hlutabréfa, sem Landsbanki hefur sölutryggt, og
   langtíma lánsfjármögnun. 

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hf. var ráðgjafi Marel og Allen & Overy í
Amsterdam veitti lögfræðilega ráðgjöf um kaup á SFS. 

Um Stork Food Systems
Höfuðstöðvar SFS eru í Hollandi, en félagið er með framleiðslu í Hollandi,
Frakklandi, Bandaríkjunum, Spáni og í Brasilíu. Alls starfa um 1.875 starfsmenn
hjá félaginu. 

SFS hefur einbeitt sér að þróun hátæknibúnaðar fyrir vinnslu á fuglakjöti og
öðru kjöti, auk frekari vinnslu matvæla. Á síðasta ári varð Stork Food and
Dairy Systems (SFDS) hluti af SFS. SFDS framleiðir vörur til nota við vinnslu
mjólkurafurða, safa, annarra matvæla og lyfjavara. 

Áætluð heildarvelta SFS árið 2007 er 380 miljónir evra, þar af er um 310
miljónir evra frá kjarnastarfsemi þess í fuglakjöti og annarri kjötframleiðslu
og 70 miljónir frá SFDS. Hagnaður þessa árs fyrir fjármagnsliði (EBITDA) er
áætlaður 31 miljón evra. Af þessu er 41 miljón evra hagnaður af
kjarnastarfsemi, en 4 miljóna evra tap var á SFDS auk 6 miljóna evra kostnaðar
vegna endurskipulagningar. 

Á síðustu fjórum árum hefur innri vöxtur kjarnastarfseminnar verið 14% og
byggðist hann á öflugri vöruþróun og aukinni áherslu á nýmarkaðslönd. Framlegð
(EBIT) hefur verið að meðaltali 10%. SFS hefur starfað með Marel með góðum
árangri á undanförnum níu árum og þróað sérsniðnar lausnir í vinnslu á
fuglakjöti. 

SFDS hefur sterkt vöruframboð í búnaði fyrir framleiðslu á mjólkurafurðum, safa
og lyfjavinnslu sem vex hvað hraðast. Eftir sameiningu SFS og SFDS var tilkynnt
um fyrirhugaða endurskipulagningu á rekstri félagsins þann 31. október 2007, en
þess er vænst að starfsemi SFDS skili hagnaði árið 2008. 

Ávinningur af yfirtökunni

Helsti ávinningur fyrir Marel og SFS er m.a.:
•  Í sameiningu mynda Marel og SFS rekstrareiningu sem hefur stærð og burði til
   að fara inn á nýja markaði í Mið- og Austur-Evrópu, Asíu og Suður-Ameríku,
   þar sem áætlaður árlegur vöxtur er yfir 7%. 
•  Stærri eining getur: 
       o  Skapað betra jafnvægi milli prótíntegunda og þar með lækkað
          rekstraráhættu; 
       o  Nýtt sér stærðarhagkvæmni í framleiðslu og aukið framleiðslugetu,
          einkum í nýmarkaðslöndum; 
       o  Beitt styrk sínum við innkaup á íhlutum, málmum og rafeindabúnaði. 
•  Marel og SFS hafa unnið saman við þróun og framleiðslu á vinnslulínum fyrir
   fuglakjöt. Þeim hefur tekist að sameina styrkleika SFS í vélahönnun við
   nýsköpun Marel í raftækni og á hugbúnaðarsviðinu. Fyrirtækin munu byggja á
   farsælli samvinnu sinni til að samþætta rekstur sinn og skapa virði fyrir
   viðskiptavini. 

Félagsleg atriði 
Kaupin munu ekki hafa neikvæð áhrif á starfsfólk SFS eða starfsskilyrði þeirra. 


„Í ársbyrjun 2006 settum við fram metnaðarfull vaxtarmarkmið til næstu þriggja
til fimm ára,“ segir Árni Oddur Þórðarsson, stjórnarformaður Marel Food System.
„Á innan við tveimur árum höfum við ráðist í þrjár veigamiklar yfirtökur og að
auki fjárfest í verulega í aukinni framleiðslugetu og markaðsstarfi. Áætluð
velta næsta árs er um 650 miljónir evra til samanburðar við 129 miljóna evru
veltu á árinu 2005. Stjórnendur og starfsfólk hafa unnið hörðum höndum að
samþættingu fyrirtækjanna. Marel er nú betur í stakk búið til að sinna
alþjóðlegum viðskiptavinum. Áherslan nú er innri vöxtur og aukin
verðmætasköpun. Við erum afar þakklát fyrir þann stuðning sem Marel hefur
fengið frá fjármálamörkuðum, ekki síst frá breiðum hóp hluthafa..“ 

„Sterk nýsköpun hjá SFS gerir félagið að óska samstarfsaðila fyrir Marel,“
segir Hörður Arnarson, forstjóri Marel Food Systems. „Árangursrík samvinna
okkar sl. áratug hefur skapað virðingu fyrir samstarfsfélögum okkar hjá SFS og
sýnt að við getum vaxið og náð árangri saman. Vörulínur félaganna skarast ekki.
Við þurfum stærð, stöðuga nýsköpun og fótfestu á mörkuðum um allan heim til að
ná árangri í okkar grein þar sem samkeppnin er afar hörð. Þessi kaup styrkja
okkur til að fara inn í nýja markaði, t.d. í Asíu, Austur-Evrópu og
Suður-Ameríku. Með þessu skrefi opnast tækifæri til að nýta sem best
framleiðslugetu okkar og ná tæknilegri hagkvæmni.“ 

„Það er ánægjulegt fyrir okkur að sameinast Marel,“ segir Theo Hoen, forstjóri
Stork Food Systems. „Mark¬mið okkar hefur alltaf verið að bjóða viðskiptavinum
leiðandi tæknilausnir sem bæta sam¬keppnis¬forskot þeirra enn frekar og auka
virði framleiðslu þeirra. Stöðug nýsköpun hjá Marel og markaðsorðstír
fyrirtækisins í framleiðslu hágæðabúnaðar fellur þess vegna alveg að
hugmyndafræði SFS. Einnig vil ég benda á það, að Marel og SFS hafa átt farsæla
samvinnu í næstum áratug. Af fyrri reynslu okkar að dæma passar
fyrirtækjamenning þessara tveggja félaga einstaklega vel saman.“ 

Kynningarfundur:
Marel Food Systems heldur kynningarfund fyrir greinendur og fjárfesta í
höfuðstöðvum fyrirtæksins að Austurhrauni 9, Garðabæ, 29. nóvember, kl. 8:30. 
Frekari upplýsingar fást hjá:
Herði Arnarsyni, forstjóra Marel Food Systems, í síma 563 8072.

Um Marel Food Systems
Marel Food Systems er í fararbroddi á alþjóðavísu í framleiðslu á hátæknilegum
matvinnslukerfum.  Fyrirtækið útvegar háþróuð kerfi fyrir allar greinar
matvælaiðnaðar og eykur þannig gæði og virði fisks, kjötmetis og annarra
unninna matvara um allan heim. Nýstárlegar lausnir fyrirtækisins - allt frá
einstökum vélum til heilla verkunar- og vinnslustöðva - eru ávallt til hagsbóta
fyrir matvælaframleiðendur, smásala og neytendur. 

Marel Food Systems samanstendur af fjórum rekstrareiningum sem bæta hver aðra
upp. Marel ehf. á Íslandi, AEW Delford Systems Ltd í Bretlandi, Carnitech A/S í
Danmörku og Scanvægt International A/S í Danmörku. Marel Food Systems starfar í
24 löndum og hefur umboðsmenn og dreifingaraðila í yfir 40 löndum um allan
heim. Fyrirtækið fylgir ávallt nýjustu tækni með því að fjárfesta mun meir í
rannsóknum og vöruþróun en gengur og gerist í matvælaiðnaðinum.