2014-01-10 14:05:23 CET

2014-01-10 14:06:24 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Eimskipafélag Íslands hf. - Fyrirtækjafréttir

Eimskip semur um frekari lækkun á kaupverði skipa í smíðum


Seinkun verður á afhendingu skipanna á árinu

Á árinu 2011 samdi Eimskip við skipasmíðastöð Rongcheng Shenfei í Kína um smíði
á tveim gámaskipum. Skipin eru hvort um sig 875 gámaeiningar að stærð, þar af
með tengla fyrir 230 frystigáma. Burðargeta skipanna er um 12 þúsund tonn,
lengd 140,7 metrar og breidd 23,2 metrar. 

Samkvæmt samkomulagi við skipasmíðastöðina sem gert var í apríl 2013 átti fyrra
skipið að afhendast á fyrsta ársfjórðungi 2014. Nú liggur fyrir nýtt samkomulag
um afhendingu þar sem skipið verður afhent á öðrum ársfjórðungi 2014, en
jafnframt því samkomulagi hefur Eimskip samið um frekari lækkun á kaupverði
skipsins og nemur lækkunin USD 750 þúsund. Áður hafði félagið lækkað kaupverðið
á báðum skipum um samtals USD 10 milljónir. 

Afhending á seinna skipinu mun einnig tefjast. Ekki hefur verið gengið
endanlega frá samkomulagi við skipasmíðastöðina varðandi afhendingu á því
skipi, en áætlanir gera ráð fyrir að skipið verði afhent á fjórða ársfjórðungi
þessa árs. 

Seinkunin á afhendingu skipanna mun ekki hafa áhrif á siglingakerfið eða
þjónustu við viðskiptavini félagsins. Seinkunin mun þó hafa í för með sér
áframhaldandi leigu á tveimur skipum, en gert er ráð fyrir að nýju skipin komi
í stað tveggja leiguskipa sem félagið er með í rekstri í dag. 



Gylfi Sigfússon, forstjóri

„Það er vissulega óheppilegt að lengri tíma tekur að ljúka smíði skipanna en
áætlanir gerðu ráð fyrir, en það jákvæða er að töfin hefur ekki áhrif á
þjónustu við viðskipavini félagsins. Með samkomulagi um lækkun á kaupverði er
skipasmíðastöðin að koma til móts við Eimskip í ljósi þess að félagið þarf að
leigja skip lengur en áætlanir gerðu ráð fyrir. 

Það liggur fyrir að skipasmíðaiðnaðurinn í heiminum í dag hefur átt undir högg
að sækja, meðal annars vegna þess að umframafkastageta gámaskipaflota heimsins
er veruleg sem leitt hefur til þess að skipaeigendur hafa almennt verið að
reyna að fresta afhendingum á nýsmíðum þar sem þeir hafa ekki næg verkefni
fyrir skipin. Þetta hefur haft keðjuverkandi áhrif og orsakað að
afhendingartími skipa, þar á meðal skipa Eimskips, hefur dregist.“ 



Um Eimskip

Eimskip rekur 51 starfsstöð í 19 löndum og er með 16 skip í rekstri. Félagið
hefur á að skipa um 1.390 starfsmönnum, þar af rúmlega 800 á Íslandi. Um
helmingur tekna félagsins kemur frá starfsemi utan Íslands. Stefna félagsins er
að veita framúrskarandi flutningaþjónustu á Norður-Atlantshafi ásamt því að
bjóða víðtæka og öfluga þjónustu í alþjóðlegri frystiflutningsmiðlun.