2016-10-25 18:13:52 CEST

2016-10-25 18:13:52 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Landsbankinn hf. - Fyrirtækjafréttir

Landsbankinn hf.: Standard & Poor's hækkar lánshæfiseinkunn Landsbankans í BBB/A-2 með jákvæðum horfum


Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard and Poor's (S&P) hefur hækkað lang- og
skammtíma lánshæfiseinkunn Landsbankans úr BBB-/A-3 í BBB/A-2 og telur horfurnar
jákvæðar. Þetta kemur fram í mati fyrirtækisins á lánshæfi Landsbankans sem birt
var í dag, 25. október 2016.

Í fréttatilkynningu frá S&P kemur fram að lánshæfiseinkunn Landsbankans hafi
m.a. verið hækkuð vegna sterkari fjárhagsstöðu bankans auk þess sem aðstæður í
efnahagslífinu séu hagfelldari en áður. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að áhætta
vegna útlána minnki samhliða lækkandi skuldsetningu íslenskra heimila en S&P
gerir ráð fyrir að á næstu tveimur árum verði skuldahlutfall heimila á Íslandi
svipað og í öðrum auðugum Evrópulöndum. Aflétting gjaldeyrishafta gangi vel sem
muni styrkja efnahagslífið og þar með efnahagsumhverfi íslenskra banka. S&P
bendir á að bankar á Íslandi hafi nú betri aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum
og að talsverðar umbætur hafi verið gerðar á regluverki og eftirliti með
íslenskum fjármálamarkaði. Gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir
að aftur verði ofþensla, líkt og á fyrsta áratug aldarinnar. Þá hafi verið
settar skorður við áhrifum fjármagnsflæðis til og frá landinu á innlendan
efnahag.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir: ,,Það er ánægjulegt að
Standard & Poor's hafi hækkað lánshæfismat bankans. Matið staðfestir hagfellda
þróun hér á landi, sterka stöðu Landsbankans og að skýr stefna bankans skili
árangri. Undanfarin misseri höfum við í Landsbankanum fundið fyrir vaxandi
trausti og trú á bankanum. Það kom m.a. í ljós í haust þegar mikil eftirspurn
var eftir 500 milljón evra skuldabréfaútgáfu bankans til erlendra fjárfesta, sem
var til lengri tíma og á betri kjörum en áður höfðu verið í boði fyrir íslenska
banka. Hækkun á lánshæfismati úr BBB- í BBB með jákvæðum horfum gerir bankanum
enn betur kleift að veita sístækkandi viðskiptavinahópi fyrirmyndar
bankaþjónustu."


Nánari upplýsingar veita:

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, pr@landsbankinn.is og í síma 410 6263

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, ir@landsbankinn.is og í síma 410 7310


[]


S&P Press Release.pdf