2014-05-22 19:51:49 CEST

2014-05-22 19:52:50 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Eimskipafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Eimskip kynnir afkomu fyrsta ársfjórðungs 2014


Afkoma fyrsta ársfjórðungs er í samræmi við væntingar félagsins


  -- Rekstrartekjur námu 104,2 milljónum evra og lækkuðu um 1,1 milljón evra á
     milli ára
  -- EBITDA nam 6,0 milljónum evra og dróst saman um 1,2 milljónir evra frá sama
     tímabili 2013, vegna nýja siglingakerfisins og óhagstæðra veðurskilyrða í
     janúar og febrúar
  -- Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 11,1% á
     milli ára
  -- Flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun jókst um 13,4% á milli ára
  -- Eiginfjárhlutfall var 64,2% í lok mars
  -- Áætluð EBITDA fyrir árið 2014 er áfram óbreytt, á bilinu 37 til 41 milljón
     evra

Gylfi Sigfússon, forstjóri

„Afkoma á fyrsta ársfjórðungi er í samræmi við okkar væntingar og er ánægjulegt
að sjá að flutningsmagn í kerfum félagsins er að aukast. Flutningsmagn í
áætlunarsiglingum jókst um 11,1% frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra, en aukning
var á öllum markaðssvæðum nema í útflutningi frá Íslandi vegna lélegrar
loðnuvertíðar. Innflutningur til Íslands hefur aukist og erum við að sjá
aukningu í vöruflokkum eins og bifreiðum og byggingavörum sem hafa staðið í
stað á undanförnum árum. Magn í frystiflutningsmiðlun jókst um 13,4% samanborið
við sama tímabil 2013, einkum vegna aukinna flutninga frá Evrópu til Asíu, en
tekjur lækkuðu vegna lækkandi verða á tilteknum mörkuðum. Rekstrartekjur
félagsins námu 104,2 milljónum evra og drógust saman um 1,1% á milli ára, en
lækkunin endurspeglar lægri tekjur af flutningsmiðlun. Verkfallsaðgerðir
undirmanna á Herjólfi höfðu einnig neikvæð áhrif á tekjur tímabilsins vegna
ferða sem féllu niður. Þá var minna um sölu rekstrarfjármuna á fyrsta
ársfjórðungi þessa árs samanborið við fyrra ár, auk þess sem félagið losaði sig
í fyrra við sérhæfða gáma sem ekki voru lengur not fyrir. 

EBITDA nam 6,0 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 7,2
milljónir evra á sama tímabili 2013. Fyrsti ársfjórðungur hjá Eimskip er sá
ársfjórðungur sem að jafnaði skilar lægstri rekstrarafkomu. Nokkrir veigamiklir
þættir höfðu áhrif á afkomu fyrsta ársfjórðungs 2014 í samanburði við fyrra ár. 

Óhagstæð veðurskilyrði í janúar og febrúar höfðu þau áhrif að viðkomuáætlanir
skipanna fóru úr skorðum og leiddi það til aukinnar olíunotkunar og kostnaðar
vegna yfirvinnu. Undir lok mars 2013 jók félagið við afkastagetu í
gámasiglingum með því að bæta við einu skipi, en aukinn kostnaður vegna
breytingarinnar var óverulegur fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Ánægjulegt er
að sjá að þessi aukna afkastageta styður við aukningu í flutningsmagni á fyrsta
ársfjórðungi þessa árs. Loks hefur samdráttur í útflutningi á loðnu á sama tíma
og innflutningur hefur aukist valdið ójafnvægi í flutningakerfinu með auknum
kostnaði vegna tilfærslu á tómum gámum. 

Óvissa er á vinnumarkaði á Íslandi eins og félagið hefur reynslu af við rekstur
Herjólfs á árinu. Enn eru nokkrir veigamiklir samningar lausir hjá félaginu,
svo sem við Sjómannafélag Íslands. 

Gert er ráð fyrir að fyrra skipið af gámaskipunum tveimur sem félagið er með í
smíðum í Kína verði afhent nú í júní. Mun skipið fá nafnið Lagarfoss og kemur
til með að sinna þjónustu á gulu leiðinni. Nýja skipið mun leysa af hólmi eitt
af núverandi skipum félagsins. Ekki hefur verið samið um endanlegan
afhendingardag á seinna skipinu, en við gerum ekki ráð fyrir því að það verði
afhent fyrr en á árinu 2015. Seinkunin mun ekki hafa áhrif á siglingakerfið eða
þjónustu við viðskiptavini Eimskips. 

Eimskip heldur áfram að meta tækifæri til ytri vaxtar til að styrkja núverandi
stöðu sína á mörkuðum utan Íslands, tækifæri sem falla að stefnu félagsins um
að vera leiðandi flutningafélag á Norður-Atlantshafi. Áfram er unnið að því að
skoða tvíhliða skráningu félagsins í tengslum við þessi mögulegu
fjárfestingarverkefni. 

Það er jákvætt að sjá að innflutningur til Íslands er að vaxa og eru það jákvæð
merki um að land sé að rísa. Við gerum ráð fyrir að sjá útflutning aukast á
komandi mánuðum með tilkomu veiða á makríl í lögsögu Grænlands, Íslands,
Færeyja og Noregs. 

Við höldum afkomuspá okkar fyrir árið óbreyttri og gerum ráð fyrir að EBITDA
ársins 2014 verði áfram á bilinu 37 til 41 milljón evra. Þróun flutninga á
Norður-Atlantshafi í apríl og fyrstu tvær vikur í maí lofar góðu og virðist
vera í takt við vöxtinn á fyrsta ársfjórðungi.” 

Frekari upplýsingar

  -- Gylfi Sigfússon, forstjóri, sími: 525 7202
  -- Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs,
     sími: 525 7202
  -- Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang:
     investors@eimskip.is