2017-05-04 18:04:26 CEST

2017-05-04 18:04:26 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Landsbankinn hf. - Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Landsbankinn hf. : Landsbankinn hagnast um 7,6 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2017


Afkoma Landsbankans var jákvæð um 7,6 milljarða króna eftir skatta fyrstu þrjá
mánuði ársins 2017 en hagnaður bankans á sama tímabili árið 2016 nam 3,3
milljörðum króna.
Hreinar vaxtatekjur voru 8 milljarðar króna og hækkuðu um 7,4% á milli tímabila.
Hreinar þjónustutekjur námu 2,1 milljarði króna og hækkuðu um 7% frá sama
tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 3,8 milljörðum króna samanborið
við 1,8 milljarð króna á sama tímabili 2016 og skýrist hækkunin aðallega af
jákvæðum gangvirðisbreytingum á óskráðum hlutabréfum.
Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 12,5% á ársgrundvelli samanborið við 5% á
sama tímabili 2016.
Rekstrartekjur bankans fyrstu þrjá mánuði ársins námu 15,7 milljörðum króna
samanborið við 11,5 milljarða króna á sama tímabili árið 2016 og er þetta 36%
hækkun á milli tímabila. Rekstrarkostnaður lækkaði um 5,4% miðað við sama
tímabil árið 2016 en alls nam rekstrarkostnaður bankans 5,9 milljörðum króna á
tímabilinu. Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam
2,4 milljörðum króna sem er lækkun um 2,9% frá sama tímabili árið 2016.
Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,2% á fyrsta ársfjórðungi 2017 en var 1,9% á
sama tímabili árið áður.
Útlán Landsbankans jukust um 19 milljarða króna frá áramótum, einkum í formi
íbúðalána, þrátt fyrir mikla og vaxandi samkeppni á lánamarkaði. Aukningin
endurspeglar bæði aukna markaðshlutdeild Landsbankans og miklar verðhækkanir á
fasteignamarkaði.
Vanskilahlutfall hélt áfram að lækka og var 1,3% á fyrsta ársfjórðungi,
samanborið við 1,7% á sama tímabili í fyrra.
Kostnaðarhlutfall fyrstu þriggja mánaða ársins var 42,5% samanborið við 55,8% á
sama tímabili árið áður.
Lækkunin skýrist bæði af auknum tekjum og lægri rekstrarkostnaði.
Eigið fé Landsbankans var 233,9 milljarðar króna 31. mars sl. og
eiginfjárhlutfallið var 27,4%. Landsbankinn greiðir á þessu ári 24,8 milljarða
króna í arð. Annars vegar er um að ræða 13 milljarða króna arðgreiðslu vegna
rekstrarársins 2016 sem samsvarar um 78% af hagnaði ársins og var hún greidd til
hluthafa 29. mars 2017. Hins vegar er um að ræða sérstakan arð til hluthafa, að
fjárhæð 11,8 milljarðar króna, sem greiddur verður til hluthafa 20. september
2017.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri, segir:
,,Uppgjör Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi er gott og afkoman er betri en
áætlanir gerðu ráð fyrir. Tekjur bankans halda áfram að aukast sem stafar bæði
af auknum umsvifum í atvinnulífinu og aukinni markaðshlutdeild. Arðsemi bankans
er góð og sýnilegur árangur er af umbótum í rekstri bankans. Óreglulegir liðir
setja nokkurn svip á afkomuna á ársfjórðungnum en þó er ljóst að jafn og góður
vöxtur er í reglulegri starfsemi bankans. Við höldum sterkri stöðu okkar á
fyrirtækjamarkaði og í markaðsviðskiptum. Á einstaklingsmarkaði er Landsbankinn
nú með 39,2% hlutdeild, samkvæmt Gallup-könnunum. Þetta er afar ánægjulegur
árangur, enda leggjum við mikla áherslu á að viðskiptavinir finni að við erum
traustur samherji þeirra í fjármálum. Það felst mikil viðurkenning í því að
viðskiptavinir kjósi í auknum mæli að beina sínum viðskiptum til Landsbankans.
Vanskilahlutfallið hefur aldrei verið lægra og fögnum við þessari staðfestingu á
bættri stöðu viðskiptavina okkar."
Nánari upplýsingar veita:
Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, pr@landsbankinn.is og í síma 410 6263 /
899 3745

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, ir@landsbankinn.is og í síma 410 7310


[]