2015-09-07 12:06:32 CEST

2015-09-07 12:07:33 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Íbúðalánasjóður - Breyting á stjórn/framkvæmdastjórn/endurskoðendum

Skipulagsbreytingar hjá Íbúðalánasjóði - Nýtt skipurit


Íbúðalánasjóður hefur á síðustu tveimur árum náð fram töluverðri
rekstrarhagræðingu. Áframhaldandi hagræðing, bætt þjónusta og einföldun
starfseminnar eru markmið breytts skipulags Íbúðalánasjóðs sem kynnt var í dag.
Framkvæmdastjórar sviða hjá sjóðnum verða í framtíðinni fjórir en voru sex
áður. Nýtt skipurit þess efnis var samþykkt á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs nú
síðdegis. Nýja skipulagið miðar að því aðlaga reksturinn frekar að
kjarnastarfsemi sjóðsins sem er að veita  þjónustu í almannaþágu með
húsnæðislánveitingum til almennings um allt land. Samhliða verður sölu eigna
haldið áfram um leið og dregið verður úr þeim hluta starfseminnar sem tengdist
úrlausn skuldamála í kjölfar bankahrunsins, en þeirri vinnu er nú að mestu
lokið. 

Eftir skipulagsbreytingarnar skiptist starfsemi Íbúðalánasjóðs í fjögur
meginsvið: viðskiptasvið, útlánasvið, fjármálasvið og rekstrarsvið. Verkefni
eignasviðs og upplýsingatæknisviðs  verða felld undir nýtt svið sem nefnist
rekstrarsvið og verkefni lögfræðisviðs færast beint undir forstjóra.
Framkvæmdastjóri viðskiptasviðs verður Guðrún Soffía Guðmundsdóttir,
framkvæmdastjóri lánasviðs verður Úlfar Þór Indriðason, framkvæmdastjóri
rekstrarsviðs verður Gunnhildur Gunnarsdóttir og framkvæmdastjóri fjármálasviðs
Sigurður Jón Björnsson. 

Skipulagsbreytingarnar eru liður í stefnumótunarvinnu stjórnar í framhaldi af
skilum verkefnastjórnar velferðaráðherra á skýrslu um framtíðarskipan
húsnæðismála síðasta vor. Stefnumótunin felur í sér áherslu á einfaldari
rekstur, aukna áherslu á kjarnastarfsemi sjóðsins, markvissar aðgerðir til
lausnar á fjármögnun skuldbindinga sjóðsins og jafnvægi í lánastarfsemi og
fjármögnum sjóðsins. 


Stjórn sjóðsins lítur svo á að með áðurnefndum skipulagsbreytingum verði
Íbúðalánasjóður betur í stakk búinn til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu
á húsnæðislánamarkaði: að veita þjónustu í almannaþágu, að stuðla að
húsnæðisöryggi með sanngjörnum lánakjörum óháð stöðu eða búsetu og stuðla
þannig að stöðugleika á íslenskum húsnæðismarkaði. Samhliða
skipulagsbreytingunum verður ráðgjöf, fræðsla og þjónusta við viðskiptavini
Íbúðalánasjóðs efld.