2009-08-21 13:09:11 CEST

2009-08-21 13:10:11 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Eyrir Invest ehf. - Fyrirtækjafréttir

Eyrir Invest hefur samið við alla eigendur skuldabréfaflokks EYRI 07 2 um framlengingu til apríl 2011


Eyrir Invest ehf. hefur samið við alla eigendur skuldabréfaflokksins EYRI 07 2
um framlengingu og skilmálabreytingu. Skuldabréfaflokkurinn var gefinn út 20.
ágúst 2007 og var að fjárhæð 3.500 milljónir króna með vaxtagreiðslum á 3ja
mánaða fresti og lokagjalddaga 20.ágúst 2009.  Skilmálabreytingin felur í sér
að 90% af höfuðstóli verði greiddur 20. apríl 2011 og 10% fyrr. Eyrir mun eftir
sem áður greiða vaxtagreiðslur á 3ja mánaða fresti. 

Vaxtaálag er 500 punktar á Reibor eftir skilmálabreytingu. Ekki verður óskað
eftir áframhaldandi skráningu flokksins í Kauphöll. Eftir sem áður býr Eyrir
við upplýsingaskyldu þar sem félagið er með annan skuldabréfaflokk, EYRI 05 1,
skráðan í kauphöll en hann er á lokagjalddaga í maí 2012. 

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest:
„Við erum þakklát því trausti sem lánveitendur sýna okkur.  Langtímahorfur
lykileigna Eyris eru góðar.  Í rekstri Eyris, sem og í aðkomu okkar að rekstri
lykileigna, höfum við ávallt lagt ríka áherslu á skýra stefnu, gegnsæjan
rekstur og ábyrga fjármögnun. Marel, Össur og Stork hafa sýnt mikinn styrk í
krefjandi efnahagsumhverfi. Með auknu kostnaðaraðhaldi hefur tekist að viðhalda
sterku sjóðsstreymi og rekstrarhorfur eru góðar."

Lykileignir Eyris eru 38% eignarhlutur í Marel Food Systems hf., 20%
eignarhlutur í Össuri hf. og um 17% hlutur í hollensku iðnaðarsamteypunni
Stork.  Eyrir hefur verið hluthafi í Marel og Össuri frá 2004 og í Stork frá
árinu 2006.  Kjölfestueignir Eyris hafa á undangengnum árum skapað sér stöðu
sem markaðsleiðtogar hver á sínu sviði.  Að baki er tímabil uppbyggingar og
framundan er tímabil uppskeru.  Lengri tíma fjármögnun hefur verið tryggð hjá
öllum kjölfestueignum Eyris. Össur og Marel eru ekki skuldbundin til að greiða
afborganir af rekstrarlánum sínum fyrr en í lok ársins 2011 og Stork er lengri
tíma fjármagnað.  Á næstu árum mun sterk staða félaganna tryggja öflugt
sjóðstreymi. 

Fyrirtækjaráðgjöf Nýja Kaupþings banka hf var ráðgjafi Eyris í viðskiptunum.