2008-08-12 17:55:05 CEST

2008-08-12 17:56:06 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Marel Food Systems hf. - Ársreikningur

- Annar ársfjórðungur 2008 - Góður söluvöxtur og rekstrarafkoma í samræmi við sett markmið


Marel Food Systems hf - Afkomutilkynning

9,5% EBIT (próforma) á öðrum ársfjórðungi

•  Kaup Marel Food Systems á Stork Food Systems gengu í gegn þann 8. maí s.l. og
   kemur Stork Food Systems inn í reikninga félagsins frá þeim tíma. 

•  Sala annars ársfjórðungs nam 145,0 milljónum evra samanborið við 72,6
   milljónir á sama tíma árið áður.  Jókst salan því um 99,8% á milli ára.  
   Próforma sala Marel Food Systems og Stork Food Systems af kjarnastarfsemi (án
   Food & Dairy deildar Stork ) á öðrum ársfjórðungi 2008 nam 162,6 milljónum
   evra, sem er aukning um 8,2% samanborið við sama tímabil árið 2007, um 11% á
   föstu gengi. 

•  Rekstrarhagnaður (EBIT) á tímabilinu var 11,1 milljónir evra, sem er 7,7% af
   sölu, samanborið við 3,4 milljónir (4,7% af sölu) á sama tíma í fyrra. 
   Próforma rekstrarhagnaður (EBIT) var 15,5 milljónir evra, sem er 9,5% af
   sölu. 

•  Fjármagnskostnaður á ársfjórðungnum var hagstæður.  Á fjórðungnum voru gefin
   út skuldabréf í íslenskum krónum að fjárhæð 6 milljarðar.  Uppgjörsmynt
   Marels er evrur og á hagstæðum tímapunkti var skuldbingingum félagsins vegna
   skuldabréfaútboðsins skipt yfir í evruskuldbindingar, samtals 47 milljónir
   evra, sem skapar einskiptis gengishagnað. 

•  Hagnaður tímabilsins eftir skatt nam 10,1 milljónum evra samanborið við 7,4
   milljónir á öðrum ársfjórðungi árið 2007. 

Helstu niðurstöður fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008

•  Próforma sala Marel Food Systems og Stork Food Systems af kjarnastarfsemi
   fyrstu sex mánuði ársins nam 317,8 milljónum evra, sem er aukning um 8,5%
   samanborið við sama tímabil 2007, eða 11,5% á föstu gengi.
•  Rekstrarhagnaður (EBIT) fyrstu sex mánuðina var 13,3 milljónir evra, sem er
   6,1% af sölu, samanborið við 6,7 milljónir (4,6% af sölu) á sama tíma í
   fyrra. Próforma rekstrarhagnaður (EBIT) var 27,7 milljónir evra sem er 8,7%
   af sölu. 

•  Netto vaxtaberandi skuldir eru 379,2 milljónir evra.  

•  Eigið fé nam 306,2 milljónum evra og eiginfjárhlutfall var 32,5% í lok júní
   2008. 


Hörður Arnarson, forstjóri:

“Við kláruðum formlega samruna Marel og Stork Food Systems þann 8. mai
síðastliðinn sem voru mikil tímamót í sögu fyrirtækisins   Sameinað fyrirtæki
hefur stærð og styrk til að fylgja eftir vexti viðskiptavina inn á nýmarkaði
Austur Evrópu, Suður-Ameríku og Asíu. 

Eftir þrjár stefnumarkandi yfirtökur á síðastliðnum tveimur árum höfum við á
þessu ári lagt áherslu á samþættingu félaganna, innri vöxt og bætta afkomu. 
Marel Food Systems skilar á öðrum ársfjórðungi 9,5% rekstrarhagnaði (próforma)
sem hlutfall af sölu af kjarnastarfsemi og sýnir jafnframt sterkan innri vöxt.
Fyrstu sex mánuði ársins er rekstrarhagnaður (próforma) sem hlutfall af sölu
8,7%, með sýnilegum bata á milli fjórðunga, sem er í samræmi við þau markmið um
að ná 9% rekstrarhagnaði fyrir árið í heild og yfir 10% á næsta ári.” 


Horfur 

Afkoman er í samræmi við þær væntingar sem gerðar voru í lok fyrsta
ársfjórðungs en þá var reiknað með að afkoma fyrirtækisins myndi batna
umtalsvert þegar liði á árið. Samþætting þeirra fyrirtækja sem keypt hafa verið
á undanförnum árum er farin að skila hluta af þeim samlegðaráhrifum sem stefnt
var að. Próforma rekstrarhagnaður (EBIT) annars ársfjórðungs fyrir félagið í
heild er 9,5% af veltu (8,7% fyrir fyrstu sex mánuði ársins), sem er í samræmi
við yfirlýst markmið fyrirtækisins um 9% fyrir árið í heild. Þó munu áhrif
sameiningu Scanvaegt og Marel ehf undir nafni Marel, sem tilkynnt var á fyrsta
ársfjórðungi, ekki byrja að skila sér að ráði fyrr en á þriðja ársfjórðungi og
að fullu á fjórða ársfjórðungi. 

Vinna við samþættingu á Marel Food Systems og Stork Food Systems er að hefjast
en eins og áður hefur verið bent á er hún af allt öðrum toga en samþætting
Marel og Scanvaegt. Engin skörun er í vöruframboði fyrirtækjanna og því er mun
minni einskiptiskostnaður við samþættinguna. Í upphafi er áhersla lögð á að ná
fram samlegðaráhrifum með sameiginlegum upplýsingakerfum, innkaupum,
framleiðslu og í markaðsstarfi, og er sú vinna þegar hafin. 

Afkoma fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi mun eins og áður mótast nokkuð af
sumarleyfum. 

Ýmsar blikur eru á lofti í rekstarumhverfi fyrirtækisins, einkum miklar
hækkanir á hráefni til matvælaframleiðslu og óróleiki á alþjóðlegum
fjármálamörkuðum.  Enn sem komið er hafa áhrifin á rekstur félagsins verið
óveruleg. 
Þetta ástand felur bæði í sér ógnanir og tækifæri. Erfitt er að spá fyrir um
heildaráhrif þeirra á starfsemi fyrirtæksins ef þetta ástand varir lengi.