2013-02-22 15:07:19 CET

2013-02-22 15:08:20 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Arion Bank hf. - Fyrirtækjafréttir

Arion banki lýkur sínu fyrsta erlenda skuldabréfaútboði


Fyrr í dag lauk Arion banki skuldabréfaútboði í norskum krónum með milligöngu
Pareto Öhman. Alls voru seld skuldabréf til um 60 fjárfesta í Noregi, Svíþjóð,
Finnlandi, Bretlandi, meginlandi Evrópu og Asíu fyrir 500 milljónir norskra
króna eða um 11,2 milljarða íslenskra króna. Umframeftirspurn var eftir
bréfunum. Um er að ræða fyrstu erlendu fjármögnun bankans og fyrstu erlendu
skuldabréfaútgáfu íslensks fjármálafyrirtækis frá árinu 2007. Bankinn réðst í
aðdraganda útgáfunnar í umfangsmikla kynningarherferð og hefur hann á
undanförnum mánuðum átt fundi með fjárfestum í Bandaríkjunum, Bretlandi,
Þýskalandi og á Norðurlöndunum. 

Stefnt er að því að taka skuldabréfin til viðskipta í kauphöll Noregs.
Skuldabréfin bera fljótandi vexti, 5,00% ofan á NIBOR og eru til þriggja ára,
með lokagjalddaga árið 2016. 


Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Þetta er mikilvægt skref fyrir okkur og fyrsta skrefið í að opna erlenda
markaði hvað fjármögnun bankans varðar. Ég held að óhætt sé að segja að þetta
sé einnig áfangi í endurreisn íslensks efnahagslífs. En höfum í huga að þetta
er aðeins eitt skref af mörgum í þá átt að greiða fyrir aðgangi íslenskra
fyrirtækja að erlendu lánsfé. 

Í úgáfunni felst viðurkenning á því starfi sem hér hefur verið unnið á
undanförnum árum bæði innan bankans og utan. Nýleg hækkun á lánshæfismati
Íslands og lyktir Icesave málsins höfðu hér áhrif en trú þessara fjárfesta á
Arion banka og framtíð hans er auðvitað forsenda þátttöku þeirra í útboðinu.
Þannig er vel heppnað skuldabréfaútboð bankans nú ekki síst afrakstur mikillar
vinnu undanfarinna ára við uppbyggingu bankans. 

Við höfum lagt mikla áherslu á að kynna Arion banka, stöðu hans og þróun, fyrir
erlendum fjármálastofnunum og fjárfestum allt frá stofnun bankans. Aukinn
kraftur var settur í þá vinnu á árinu 2012 og þá með fjármögnun í huga enda
markmið okkar að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans. Við höfum lagt áherslu
á hreinskiptin samskipti og að byggja upp orðspor bankans og nú sjáum við
ávinning þeirrar vinnu.“ 



Nánari upplýsingar veitir:
Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, sími: 856 7108.