2009-05-06 19:04:25 CEST

2009-05-06 19:05:35 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel Food Systems hf. - Ársreikningur

Marel Food Systems hf, kynnir afkomu fyrsta ársfjórðungs 2009


Gott sjóðstreymi þrátt fyrir frestun viðskiptavina á stærri verkefnum

Afkoma af kjarnastarfsemi
• Sölutekjur af kjarnastarfsemi námu 103,2 milljónum evra, samanborið við
metárangur á fyrsta ársfjórðungi 2008 (Q1 2008: 140,5 milljónir evra), sem er
samdráttur upp á 27%. Samdráttur í tekjum er afleiðing fækkunar pantana þegar
fjármálakreppan stóð sem hæst á seinni helmingi árs 2008. 
• Rekstrartap (EBIT) af kjarnastarfsemi nam 1,7 milljónum evra (Q1 2008: 13,4
milljónir evra). Einskiptiskostnaðar vegna skipulagsbreytinga nam 3,5 milljónum
evra. EBITDA var 0,4 milljónir evra (Q1 2008: 18,4 milljónir evra). 

Kjarnastarfsemi Marel Food Systems er framleiðsla og sala á tækjum og kerfum
til vinnslu á kjúklingi, fiski og kjöti. Starfsemi Carnitech í laxaiðnaði og á
sviði frystibúnaðar, sem og starfsemi Carnitech í Bandaríkjunum, er nú undir
merkjum og yfirstjórn Marel. Starfsemi Food and Dairy Systems (F&D), Scanvaegt
Nordic og það sem eftir stendur af starfsemi Carnitech er nú skilgreind sem
utan kjarnastarfsemi Marel Food Systems. Endurskilgreind velta af
kjarnastarfsemi árið 2008 nemur 548 milljónum evra. 

Samstæðureikningur
• Heildartekjur námu 130,3 milljónum evra, samanborið við 74,0 milljónir evra á
fyrsta ársfjórðungi 2008, sem er aukning um 76%. Tap eftir skatta nam 7,0
milljónum evra (Q1 2008: hagnaður upp á 0,7 milljónir evra). 
• Handbært fé eykst úr 21 milljónum evra í 33 milljónir evra vegna sterks
sjóðstreymis frá rekstri upp á 16,8 milljónir evra (Q1 2008: 1,8 milljónir
evra) og takmarkaðrar fjárfestingar á tímabilinu. 
• Nettó vaxtaberandi skuldir eru 373 milljónir evra (Q4 2008 : 379 milljónir
evra). Meðallíftími skulda er um fjögur ár. 

Horfur eru góðar
• Á öðrum ársfjórðungi hefur fyrirtækið selt eignir utan kjarnastarfsemi að
söluandvirði 37,5 milljónir evra; þar af verða 35 milljónir evra staðgreiddar.
Hagnaður af sölunum er rúmlega 10 milljónir evra. 
• Þróun á mörkuðum er hagstæð; verð á kjúklingi og fiski er að hækka á sama
tíma og stórir kostnaðarliðir eins og verð á korni og olíu er að lækka og
vextir eru í sögulegu lágmarki. 
• Heildarsala í Apríl er mjög viðunandi og sala á stöðluðum vörum var í
sögulegu hámarki. Það tekur 4-8 mánuði fyrir sölu að skila sér í tekjum. 
• Búist er við að tekjur ársins 2010 verði sambærilegar við það sem þær voru
árið 2008. Vegna víðtækra hagræðingaraðgerða lækkar grunnkostnaður
fyrirtækisins til muna. Markmið félagsins er að halda áfram að vaxa umfram
meðaltal markaðarins og að skila rekstrarhagnaði upp á minnst 10% af sölu. 


Theo Hoen, forstjóri:

“Rekstrarafkoma fyrsta ársfjórðungs endurspeglar áhrif alþjóðlegu
fjármálakreppunnar á starfsemi fyrirtækisins. Eins og búist var við eiga
viðskiptavinir okkar enn í vandræðum með að fjármagna fjárfestingar í stórum
kerfum. Hins vegar hafa núverandi markaðsaðstæður haft óveruleg áhrif á sölu
varahluta og þjónusta, sem og sölu staðlaðra tækja og smærri kerfa. 

Það eru skýr teikn á lofti um að sala sé að aukast. Í Bandaríkjunum sérstaklega
eru sterkar vísbendingar um að efnahagsbati sé hafinn. Það tekur um 4-8 mánuði
fyrir tekjur af sölu að skila sér í tekjum þannig að sölutekjur munu aukast
þegar líður á árið. 

Við höfum brugðist við samdrætti í pöntunum með niðurskurði. Þær aðgerðir sem
við gripum til á fjórða ársfjórðungi 2008 og fyrsta ársfjórðungi þessa árs -
þar á meðal 12% fækkun á fjölda starfsmanna síðan um mitt síðasta ár - mun
byrja að skila sér í lægri kostnaði á öðrum ársfjórðungi. Í þessum
sparnaðaraðgerðum höfum við undanskilið tvö svið - rannsóknir og þróun og
alþjóðlegt sölu- og þjónustunet okkar, sem við lítum á sem þá máttarstólpa sem
framtíðarvöxtur og verðmætasköpun munu byggja á. 

Til lengri tíma litið eru horfur áfram mjög góðar og það er sterkur
undirliggjandi vöxtur í greininni. Prótínneysla heldur áfram að aukast og
viðskiptavinir okkar eru að hagnast. Þeir treysta á okkur til að þróa þær vörur
og kerfi sem gera þeim kleift að fanga vöxtinn með sem mestum hagnaði. Við erum
fullviss um að ná markmiðum okkar um vöxt umfram meðaltal markaðarins og
rekstrarhagnað upp á 10% þegar markaðsaðstæður batna. Þegar áhrif kreppunnar
dvína mun fyrirtækið standa sterkara en áður eftir þær hagræðingaraðgerðir sem
við höfum ráðist í.” 


Horfur

Aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa enn áhrif á starfsemi Marel Food
Systems, sérstaklega á sölu stærri kerfa, oft fyrir nýjar verksmiðjur. Um
þriðjungur af tekjum fyrirtækisins byggir að jafnaði á sölu slíkra kerfa.
Viðskiptavinir Marel Food Systems hafa átt í erfitt með að fjármagna slík
verkefni. En þar sem þessum verkefnum hefur einungis verið frestað en ekki
aflýst er líklegt að uppsöfnuð fjárfestingarþörf muni hafa myndast þegar
aðstæður á fjármálamörkuðum lagast. 

Á síðustu mánuðum hefur orðið vart við hægan en stigvaxandi bata á helstu
mörkuðum fyrirtækisins sem virðist vera afleiðing almenns bata á alþjóðlegum
fjármálamörkuðum. Í Bandaríkjunum sérstaklega, stærsta markaði Marel Food
Systems, eru skýr merki um að efnahagsbati sé hafinn. Í aprílmánuði var metsala
í Bandaríkjunum og undirliggjandi þættir í viðskiptaumhverfinu eru að þróast
til betri vegar. 

Þessi þróun er í samræmi við aðstæður í efnahagslífinu. Mælingar í aprílmánuði
á framleiðslu og viðhorfum neytenda í Bandaríkjunum hafa ekki verið jafn háar
síðan í september. Þó að gert sé ráð fyrir að efnahagslægðin muni vara áfram
næstu mánuðina eru tölurnar taldar benda til að aðgerðir til að lækka
lántökukostnað og losa um lánsfjármagn séu að skila árangri. 

Hvað matvælaiðnaðinn varðar sérstaklega hafa orðið breytingar á neysluvenjum.
Neytendur sækja síður dýrari veitingahús og kjósa þess í stað að versla við
skyndibitastaði og kaupa ódýrari tilbúna rétti. Þar af leiðandi hefur sala og
hagnaður fyrirtækja eins og Aldi, Lidl og McDonald's aukist. Viðskiptavinir
Marel Food Systems, matvælaframleiðendurnir sem sjá þessum aðilum fyrir vöru,
hafa sömuleiðis hagnast. Þeir eru að keyra framleiðslulínur sínar á sama hraða
og þeir gerðu fyrir kreppuna og þurfa þar af leiðandi jafnmikið á varahlutum og
þjónustu að halda og áður. Þetta skiptir Marel Food Systems verulega máli þar
sem um 35% af tekjum fyrirtækisins byggja venjulega á sölu varahluta og
þjónustu. Fjármálakreppan hefur ekki haft teljandi áhrif á þennan tekjugrunn
fyrirtækisins. 

Sala staðlaðra tækja og smærri kerfi, sem stendur sömuleiðis að jafnaði undir
um 35% af tekjum Marel Food Systems, hefur einnig gengið vel og hefur orðið
fyrir óverulegum áhrifum af fjármálakreppunni. Viðskiptavinir okkar hafa haldið
áfram að fjárfesta í slíkum búnaði svo lengi sem það er áþreifanlegur
ávinningur af honum og það tekur ekki lengur en tvö ár fyrir hann að borga sig
upp. Marel Food Systems býður upp á einstakt og háþróað vöruúrval í þessum
flokki og hefur ótvírætt forskot á samkeppnisaðila sína. 

Marel Food Systems gerir ráð fyrir að sjóðstreymi félagsins muni vera jákvætt
út árið. Búist er við að sala og afkoma muni batna lítilsháttar á seinni hluta
árs þegar markaðsaðstæður lagast. Þá er líklegt að lækkun á kornverði og vöxtum
muni á komandi mánuðum gera matvælaframleiðendum auðveldara fyrir að fjárfesta
í búnaði til að bregðast við breyttum kröfum og væntingum neytenda. 


Kynningarfundur 7. maí 2009

Marel Food Systems boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins fimmtudaginn
7. maí 2009 kl. 8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabær. 


Birtingardagar fyrir reikningsárið 2009 og aðalfundur 2010

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2009:

2. ársfjórðungur 2009				6. ágúst 2009
3. ársfjórðungur 2009				3. nóvember 2009
4. ársfjórðungur 2009				4. Febrúar 2010

Aðalfundur Marel Food Systems hf			3. mars 2010


Frekari upplýsingar veita:

Erik Kaman, fjármálastjóri 				Sími: 563-8000
Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Marel ehf.		Sími: 563-8000